Umferðarslys

designed_by_expanded_gallery2.jpg

Þegar einstaklingar slasast af völdum notkunar vélknúinna ökutækja getur sá hinn sami átt bótarétt úr slysatryggingu ökumanns eða ábyrgðartryggingu hlutaðeigandi ökutækis. Þessi bótaréttur er reistur hlutlægum grunni sem hefur það í för með sér að tjónþoli þarf ekki að sanna sök eiganda ökutækisins til þess að eiga bótarétt, hann er einfaldlega til staðar ef umferðarlsys ber að höndum. Um er að ræða svokallaða hlutlæga ábyrgð þess aðila sem skráður er fyrir ökutækinu. Til þess að tryggja greiðslur á mögulegum skaðabótum vegna þess tjóns er hlýst af notkun ökutækisins er eiganda þess gert skylt að kaupa svokallaða ábyrgðartryggingu ökutækis sem og slysatryggingu ökumanns hjá viðurkenndu vátryggingafélagi.

Það er rétt að undirstrika það að ökumenn eru tryggðir fyrir því tjóni sem þeir verða fyrir óháð því hvort þeir hafi verið í rétti eða órétti að því gefnu að þeir hafi ekki valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi, en slíkt getur valdið skerðingu eða brottfalli bótaréttar. Það er því útbreiddur misskilningur að sá sem sé í órétti eigi ekki rétt til slysabóta.

Líkamstjón af völdum vélknúins ökutækis er bætt á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Lögin gera ráð fyrir því að tjónþoli verði jafnsettur og hann var fyrir slys. Hann á með öðrum orðum að fá allt sitt tjón bætt þ.m.t útlagðan kostnað vegna tjónsins, þjáningabætur, miskabætur og bætur fyrir varanlega örorku.

Sökum þess hversu ríkan rétt þeir eiga sem lenda í umferðarslysi, er mikilvægt að leita réttar síns, þótt tjónið kunni í upphafi að virðast smávægilegt.

Rétt er að undirstrika það að hafi tjónþoli verið með gilda frítímaslysatryggingu getur hann átt rétt til bóta úr henni samhliða þeim slysabótum sem koma úr ábyrgðartryggingu ökutækisins.

 

 

Vinnuslys

Photo Credit: ms.akr

Samkvæmt gildandi kjarasamningum þá ber vinnuveitanda skylda til að tryggja alla starfsmenn sína svonefndri slysatryggingu launþega. Slík trygging gildir óháð því hvort um sé að ræða sök þriðja aðila og má því segja að einu skilyrðin séu þau að um sé að ræða slys í skilninga skaðabótaréttar og að slysið verði rakið til starfs viðkomandi tjónþola. Þá á tjónþoli einnig rétt á skaðabótum frá Sjúkratryggingum Íslands á grundvelli laga þar að lútandi.

Verði slysið hins vegar rakið til atvika sem vinnuveitandi ber ábyrgð á, t.d. vegna vanbúnaðar eða mistaka annarra starfsmanna hans, er um að ræða skaðabætur úr ábyrgðartryggingu viðkomandi vinnuveitanda ef slík trygging er fyrir hendi. En að öðrum kosti þarf að sækja slíkar bætur úr hendi vinnuveitanda beint.

Ef slysið er einungis bótaskylt úr slysatryggingu launþega og hjá Sjúkratryggingum Íslands, á tjónþoli m.a. rétt á dagpeningum á meðan á óvinnufærni stendur, endurgreiðslu sjúkrakostnaðar sem og bótum fyrir læknisfræðilega örorku. Ef slys er hins vegar bótaskylt úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda á tjónþoli rétt á skaðabótum á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 þ.m.t. tjón vegna útlags kostnaðar, tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta, varanlegs miska og varanlegrar örorku

.

Frítímaslys

ventotene.jpg

Algengt er að í fjölskyldutryggingum tryggingafélaganna sé innifalin slysatrygging fjölskyldumeðlima sem er ætlað að bæta fyrir tjón þeirra af völdum slysa í frítíma. Þess ber þó að geta að í sumum kjarasamningum er innifalin frítímaslysatrygging fyrir þann tiltekna hóp launþega sem falla undir gildissvið viðkomandi kjarasamnings.

Algengt er að fólk átti sig ekki á bótarétti sínum vegna frítímaslysa og hugi því ekki að því að leita réttar síns ef slys í frítíma ber að höndum. Skilmálar þessara trygginga eru misjafnir eftir tryggingafélögum sem og hvernig viðkomandi tryggingapakki er samansettur. En algengt er að hinn tryggði eigi rétt á endurgreiðslu sjúkrakostnaðar upp að ákveðnu marki, greiðslu dagpeninga vegna tímabundinnar óvinnufærni sem og varanlegs miskatjóns, ef slíkt er til staðar.